Ísland varð í gær fámennasta landið í sögunni sem tryggir sér sæti á lokamóti HM í knattspyrnu karla eftir 2:0-sigur á Kósóvó á Laugardalsvelli. Með sigrinum tryggði Ísland sér toppsætið í sterkum I-riðli.
Riðillinn er einn sá erfiðasti sem íslenska liðið gat fengið en með stórkostlegri frammistöðu tókst litla Íslandi að gera það sem fáir bjuggust við. Hér að neðan má sjá hvernig riðillinn spilaðist hjá okkar mönnum.
„Gleði og stolt fylgir því að verða hér vitni að þessu ótrúlega íþróttaafreki. Þetta gerir þessari þjóð svo gott. Það er svo margt sem við getum deilt um og það er svo margt sem við getum verið ósammála um. Þess vegna er svo yndislegt að hafa þetta lið sem sameinar okkur,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í samtali við Morgunblaðið eftir að flautað var til leiksloka á Laugardalsvelli.
Þúsundir söfnuðust saman á Ingólfstorgi í gærkvöldi að leiknum loknum, á tónleikum sem þar voru haldnir. Leikmenn og þjálfarar landsliðsins komu á Ingólfstorg og voru hylltir sem þjóðhetjur af mannfjöldanum. Gengu sumir svo langt að fullyrða að um mesta íþróttaafrek Íslandssögunnar væri að ræða.
Fjallað er um árangur Íslands í fjölmiðlum um allan heim, má þar nefna Sydney Morning Herald, New York Times, Washington Post.
„Ertu að grínast! Við erum að fara á HM!,“ hefur Sydney Morning Herald eftir leiklýsanda RÚV og tekur fram að hann hafi öskrað þetta þegar flautað var til leiksloka. Á vef SMH er sýnt myndskeið frá leiknum og fagnaðarlátunum, líkt og franski fjölmiðillinn L’Equipe gerir einnig.
Fjölmargir Íslendingar þustu á Ingólfstorg og tóku þar á móti leikmönnum liðsins. Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út þegar landsliðið fór upp á sviðið á Ingólfstorgi. Meðal þeirra sem tóku þátt í hátíðinni á Ingólfstorgi er MC Emmsjé Gauti sem tók lag sitt Reykjavík er okkar.
„Annað kraftaverk Íslands,“ er fyrirsögn á frétt L’Equipe um leik Íslands og Króatíu. New York Times fjallar einnig um leikinn og ævintýri Íslands á EM í fyrra. Þar kemur fram að ljóst sé að víkingaklappið muni heyrast frá Rússlandi á næsta ári.
Washington Post tekur í svipaðan streng því þar kemur fram í fyrirsögn að víkingaklappið sé á leið til Rússlands.